Að vera þjónn og hjálpa öðrum að vera þjónn

Robert Greenleaf nefnir fyrstu bók sína um þjónandi forystu Þjónninn sem leiðtogi (The Servant as Leader) og leggur þar áherslu á kjarna hugmyndarinnar, þ.e. að verkefni leiðtogans sé að vera þjónn. Hann leggur mikla áherslu á að forsenda forystu sé að vera þjónn og að það sé mikill munur á því ef forystan felst í því að vera fyrst leiðtogi og síðan þjónn eða að upphaf forystu sé að þjóna. Samt sem áður er forystuhlutverk leiðtogans afgerandi og er grundvallaratriði, en ,,til þess að þjónn geti orðið leiðtogi verður leiðtoginn að vera þjónn”.

Hér er kjarninn þjónusta og að þessu leyti er hugmyndin um þjónandi forystu ólík öðrum hugmyndum um stjórnendur og leiðtoga. Útgangspunktur þjónandi forystu er að mæta þörfum starfsfólks en kjarninn í öðrum hugmyndum um forystu er að ná markmiðum fyrirtækisins og að mæta þörfum viðskiptavina. Þjónn í hlutverki forystu hlustar af alúð á hugmyndir og skoðanir starfsfólks, leggur sig fram um að skilja og að mæta þörfunum. Leiðarljós þjónandi forystu er að láta sér þykja vænt um starfsfólkið, jafnvel þótt hugmyndir falli ekki alveg að hugmyndum forystunnar eða starfsfólkið sjálft sé stundum til vandræða. Þjónandi forysta einkennist af hreinskilni og hispursleysi í samskiptum um leið og grunntónninn er umhyggja og umburðarlyndi.

Áhugi þjónandi leiðtoga er einlægur og beinist að þörfum samstarfsfólks. Byrjunin er alltaf að þjóna og leggja sig fram um að skynja þarfir samstarfsfólks, bæði þeirra sem vinna með okkur og þeirra sem starfa á okkar vegum og við höfum á okkar forræði. Áhuginn kemur innan frá, byggir á raunverulegri umhyggju og áhuga á samstarfsfólkinu, hugmyndum þess og þörfum. Þjóninn hlustar á hugmyndir og skoðanir samstarfsfólksins og finnur þeim farveg. Hugmyndirnar eru meðteknar en sannarlega ekki alltaf samþykktar umræðulaust. Verkefni þjónandi forystu er að skapa samræður og skilning. Einlægur áhugi, umhyggja og hlustun eru lykilorð þjónandi forystu. Umhyggjan snýst um það að hvert og eitt njóti sín í starfi. Markmið stjórnenda er að hjálpa starfsmönnunum að blómstra, að njóta hæfileika sinna og að fá útrás fyrir hugmyndir sínar og skoðanir.

Verkefni þjónandi forystu er að hjálpa starfsfólkinu að vaxa og dafna í verkum sínum og þannig vex og dafnar starfssemin og hagur viðskiptavinanna er tryggður. Þjónandi forysta skynjar þarfir starfsfólksins og gerir ráðstafanir til að mæta þessum þörfum. Grundvallarregla í þjónandi forystu, bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur, er að spyrja stöðugt hvort starfsfólkið njóti sín, hvort það fái tækifæri til að nota hæfileika sína og áheyrn og útrás fyrir eigin hugmyndir. Með stuðningi og hvatningu vex áhugi starfsfólksins á verkefnunum. Áhuginn verður einlægur og kemur innan frá og starfsfólkið fær sjálft löngun til að vera þjónar.

Texti: Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Dr. Sigrún Gunnarsdóttir

Meira um þjónandi forystu:

Hvað er þjónandi forysta? »

Hvað er nýtt við þessa hugmynd? »

Upphaf þjónandi forystu í samtíma »

Miðstöð um þjónandi forystu »