Upphaf þjónandi forystu í samtíma

Robert K. Greenleaf (1904 – 1990) er upphafsmaður hugmynda um þjónandi forystu í samtímanum. Hugmyndir hans grundvallast á að forystufólk er þjónar, starfsfólkið er í fyrsta sæti og forystan sýnir fordæmi um þjónustu með trúverðugleika og vilja til að láta starfsfólk njóta sín. Þjónandi forysta mætir þörfum starfsfólks og starfsfólkið mætir þörfum viðskiptavina af skilningi, virðingu og trausti. Áhugi forystunnar beinist fyrst og fremst að velferð starfsfólks en ekki eigin valdi eða hagsmunum. Þjónustan veitir forystufólkinu og starfsfólkinu lífsgleði og tilgang með daglegu lífi.

Robert K. Greenleaf, fullyrðir að bestu stjórnendurnir og bestu leiðtogarnir búi fyrst og fremst yfir hæfileikanum til að þjóna. Hann segir að þjónustan ætti að vera aðaleinkenni stjórnunar. Það myndi ekki einasta skapa betri og sterkari fyrirtæki heldur gefa þeim sem stjórna meiri lífsgleði. Þau þurfa að gera sig að samstarfsfólki starfsfólksins. Þeim þarf að þykja vænt um starfsfólkið. Þau þurfa að hafa brennandi áhuga á að því vegni vel. Þau verða að sjá að hagur þess í vinnunni hefur áhrif á allt líf þess. Besti prófsteinninn á þetta og jafnframt sá þyngsti er: Vaxa þau sem njóta þjónustunnar sem einstaklingar? Verða þau heilsuhraustari? Fá þau meiri visku, frelsi og sjálfstæði? Verða þau sjálf líklegri til að veita þjónandi forystu?

Fyrsta bók Roberts K. Greenleaf um þjónandi forystu, The Servant as Leader, kom út 1970. En það var árið 1966, í grein sem hann sendi samstjórnendum sínum, sem hann kom fyrst fram með hugmynd sína um þjónandi forystu. Hann notaði sögu eftir Hermann Hesse um hóp pílagríma sem ferðast til austurlanda. Með þeim í för var þjóninn Leó. Hópurinn mætir ýmsum erfiðleikum en kemst í gegnum þá alla með hjálp þjónsins. Þegar líður á förina verður Leó viðskila við hópinn en án hans miðar hópnum illa áfram þrátt fyrir viðleitni hópsins. Heldur svo áfram þar til Leó slæst aftur í för með pílagrímunum og þá uppgötva pílagrímarnir að hið raunverulega hlutverk hans sem þjóns var að veita hópnum forystu. Greenleaf notaði söguna til að sýna að eðli hinna sönnu leiðtoga er fúsleikinn til að vera þjónn annarra og að það er þessi einlæga ósk til að þjóna öðrum sem gerir þá að miklum leiðtogum.

Gott samfélag er grundvallað á því að við þjónum hvert öðru. Besta leiðin til að bæta þjóðfélagið er að efla þjónustuna inni í meiri háttar stofnunum, þar á meðal kirkjunni og háskólunum segir Greenleaf.Það þarf að efla getuna til að þjóna og gera hana sýnilega. Hinar mörgu og margvíslegu stofnanir og fyrirtæki hafa áhrif sem skipta allt þjóðfélagið sköpum. Það er bæði fyrirhafnarsamt og áhættusamt að gera stofnanirnar betri svo að þær bæti heiminn. Það er of mikil eftirsókn eftir rannsóknum og sérfræði og of lítil þrá eftir þessari áhættu og fyrirhöfn. Það er of lítill vilji til að sjá að vandinn er inni hjá okkur en ekki einhvers staðar úti. Hvað kemur í veg fyrir hið góða þjóðfélag? Það er hvorki kerfið, heimskan né illskan. Þótt það væri hægt að sigrast á þessu öllu myndi það rísa upp aftur í næstu kynslóð. Hvað er það þá? Það er að gott og skynsamt fólk tekur ekki að sér að stjórna í þjónustu. Það þarf stóran hóp forystufólks sem stjórnar í þjónustu til að ná þessum markmiðum, segir Greenleaf. Þau breyta fyrst stofnunum og sýna að það er hægt að byggja upp samfélag þar sem fólk þjónar hvert öðru. Ef fleiri stofnanir eiga að verða þjónandi stofnanir verða einstaklingar sem vinna þar að verða sjálf að stofnunum í stofnuninni. Af því að breytingarnar verða með fólki innan stofnana, fólki sem getur og vill sýna þjónustu og forystu.

Texti: Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Dr. Sigrún Gunnarsdóttir

Meira um þjónandi forystu:

Hvað er þjónandi forysta? »

Hvað er nýtt við þessa hugmynd? »

Að vera þjónn og hjálpa öðrum að vera þjónn »

Miðstöð um þjónandi forystu »