Hvað er þjónandi forysta?

Þjónandi forysta er lífsstíll og lífssýn. Þau sem hafa tileinkað sér hann eiga þá einlægu ósk að hafa þjónustuna sem aðalatriðið í starfi sínu og öllu lífi. Þjónusta þeirra er forysta. Hún einkennist af löngun til að mæta þörfum og óskum þeirra sem þau vinna með og starfa fyrir, bæði samstarfsfólks og viðskiptavina. Með þessu næst árangurinn.

Í þjónandi forystu býr starfsfólkið yfir sömu hugsjón og leiðtoginn og þjónustan er byrjunarreitur beggja. Þjónandi forysta leggur fyrst og fremst áherslu á velferð og þátttöku starfsfólks og er andsvar við forystu sem leggur megináherslu á að hámarka hagnað hverju sinni með fyrirmælum, eftirliti og valdi fárra. Markmið þjónandi forystu er að mæta þörfum samstarfsfólks og viðskiptavina og efla þar með hag fyrirtækisins til langframa.

Þjónandi forysta nær til alls starfsfólks og þar með leiðtogans. Leiðtoginn þjónar starfsfólkinu, starfsfólkið þjónar viðskiptavinunum og leggur sitt af mörkum til þess að leiðtoginn geti stjórnað og veitt forystu. Þjónusta og forysta er hluti af hugsjón allra í fyrirtækinu. Leiðtoginn vinnur með starfsfólkinu og starfsfólkið axlar ábyrgð og skyldur þjónandi forystu í samstarfi við leiðtogann. Allt starfsfólkið verður sjálft að þjónandi forystufólki sem á þá djúpu ósk að þjóna hinum. Það uppörvast af ánægju viðskiptavinanna og samvinnu hinna á vinnustaðnum. Þetta frábæra starfsfólk sem brennur af áhuga á að verða fyrirtækinu til góðs gefur stjórnendum sínum kraft til að stjórna í þjónustu.

Þjónandi forysta felur í sér meira en ákveðna framkomu og verkefni. Að vera þjónn í hlutverki forystu byrjar á lönguninni til að þjóna og grundvallast á hugsjón og lífsstíl.1 Lífsstíllinn er að þjóna hvert öðru en bíða ekki eftir að vera skipað til ákveðinna verka. Viljinn og hvatinn kemur innan frá og birtist í einlægum áhuga á velferð annarra. Hugsjón þjónandi forystu er umhyggja og vilji til að láta gott af sér leiða. Umhyggjan snýr að hag einstaklinga og samfélaga. Þjónandi forysta er hugsjón starfsfólks í öllum hlutverkum vinnustaðar. Lífsstíll þjónandi forystu nær til leiðtoga og þeirra sem gegna ýmsum störfum og njóta forystu leiðtoganna.

Texti: Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Dr. Sigrún Gunnarsdóttir

Meira um þjónandi forystu:

Hvað er nýtt við þessa hugmynd? »

Upphaf þjónandi forystu í samtíma »

Að vera þjónn og hjálpa öðrum að vera þjónn »

Miðstöð um þjónandi forystu »